Innlent

Kona lífshættu í eftir eldsvoða

Ung kona liggur alvarlega slösuð á gjörgæsludeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss með alvarleg brunasár og reykeitrun eftir eldsvoða í kjallara í tveggja hæða húsi í Stigahlíð í Reykjavík snemma í gærmorgun. Aðra íbúa hússins sakaði ekki en einhverjar skemmdir urðu sökum elds og reyks. Vegfarandi tilkynnti að reykur bærist frá húsinu laust fyrir klukkan sjö og var slökkvilið komið á staðinn fjórum mínutum síðar en Stigahlíð er afar nálægt neyðarmiðstöðinni í Skógahlíð. Tveimur mínútum síðar var búið að bjarga konunni og öðrum íbúum hússins út. Fannst konan meðvitundarlaus á gólfi í herbergi í kjallara hússins og hafði hún brennst illa. Var hún flutt í skyndi á slysadeild. Tveir aðrir íbúar í kjallara hússins sluppu ómeiddir sem og fólk á efri hæðinni en fyrir utan herbergi stúlkunar urðu ekki alvarlegar skemmdir í íbúðinni. Axel Einarsson, húseigandi, sem svaf á efri hæð sagðist ekki hafa orðið var við eld né reyk og fyrst vaknað við komu lögreglu og slökkviliðs. "Við flýttum okkur út og það gekk ósköp vel. Slökkviliðið var fljótt að slökkva eldinn en hann var reyndar ekki mjög mikill heldur var fyrst og fremst mikill reykur. Skemmdir eru allavega ekki ýkja miklar." Hann segir öflugt brunavarnakerfi í húsinu en það fór þó ekki í gang fyrr en reykkafarar brutu sér leið inn í herbergi stúlkunar. Það kom Axel á óvart að hún skyldi finnast þar en hún notaði herbergið fyrst og fremst sem geymslu. "Hún hefur verið afar lítið hér upp á síðkastið og ég vissi ekki að hún gisti þarna þessa nótt." Líðan konunnar áður en Fréttablaðið fór í prentun var óbreytt. Hún er enn þungt haldin og er haldið sofandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×