Innlent

Níu mínútur frá útkalli að björgun

Ung kona liggur á gjörgæsludæld Landspítalans með reykeitrun og alvarleg brunasár eftir eldsvoða í Hlíðunum í morgun. Blaðberi tilkynnti um eldinn og liðu aðeins níu mínútur frá útkalli og þar til búið var að ná konunni út úr íbúðinni. Ung kona er mjög slösuð eftir eldsvoða í kjallaraíbúð í Stigahlíð í Reykjavík snemma í morgun og er hún á gjörgæsludeild. Þegar slökkviliðsmenn náðu konunni út var hún meðvitundarlaus og illa brennd. Tveir aðrir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Rétt fyrir klukkan sjö í morgun varð blaðberi eldsins var og gerði slökkviliði og lögreglu viðvart. Mikill hiti, eldur og reykur voru í íbúðinni sem er í niðurgröfnum kjallara og er hún mikið skemmd. Reykurinn barst einnig upp á efri hæð hússins en þar urðu skemmdir litlar sem engar. Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að eldurinn hafi kviknað út frá kerti eða sígarettu. Það fékkst ekki staðfest hjá lögreglu þar sem vettvangsrannsókn er ekki lokið. Reykkafarar unnu mikið þrekvirki við björgun konunnar en mjög skammur en níu mínútur liðu frá útkalli og þar til þeir voru komnir með hana út. Jörgen Valdimarsson, svæðisstjóri slökkviliðisins í Reykjavík segir að mikið hafi gegnið á í bílnum á leiðinni. Reykkafarar þurftu að gera sig klára í reykköfun á meðan hann leitaði upplýsinga um það hvort að einhver væri inni í íbúðinni. Reykkafarar þurftu að fikra sig áfram við leit inni í íbúðinni en ekki var vitað hvort þar væri einhvern að finna. Jón H. Hafsteinsson, reykkafari, segir þá hafa fundið konuna fljótlega á gólfinu. Inni var mikill reykur og mikill hiti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×