Innlent

Fjölmenni í Stjörnuleit

Hátt í þúsund manns mættu eldsnemma á Hótel Loftleiðir í morgun þar sem fyrstu áheyrnarprufur Idol - Stjörnuleitar hófust þriðja árið í röð. Ívið fleiri tóku þátt í áheyrnarprufunum í Reykjavík en í fyrra og virðist því enginn skortur á hæfileikafólki. Stuðningsmenn voru rúmur helmingur hópsins sem mætti á Hótel Loftleiðir í morgun en um 400 tóku lagið fyrir sérstaka forvalsdómnefnd og komust 140 af þeim áfram í næstu prufur sem verða á morgun. Þá kemur til kasta aðaldómnefndarinnar sem er skipuð Siggu Beinteins, Bubba Morthens, Páli Óskari og Einari Bárðarsyni. Sumir þátttakendur voru orðnir mjög stressaðir og aðrir þurftu á góðu faðmlagi að halda til að stappa í sig stálinu. Félagarnir Simmi og Jói voru þó söngvurunum til halds og trausts og er óhætt að segja að Simmi hafi farið á kostum. Dómnefndin heldur svo til Akureyrar á fimmtudaginn og til Egilsstaða eftir viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×