Innlent

Tekinn með brennisteinssýru

Lithái á þrítugsaldri var í gær ákærður fyrir að hafa komið með tvær flöskur af brennisteinssýru til landsins á mánudag. Brennisteinssýra er nauðsynlegt efni við amfetamínframleiðslu og segir Jóhann Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli að þessu fundur sé skýr vísbending um að framleiðsla þess eigi sér stað hér á landi í nokkrum mæli. Maðurinn var tekinn í hefðbundna tollskoðun við komunu til landsins. Ekkert misjafnt fannst í farangri hans og virtist hann einungis vera með leyfðan áfengisskammt með sér, sem er ein flaska af sterku áfengi og ein af léttu. Tollvörðum þótti þó sem flöskurnar væru þyngri en eðlilegt gæti talist og náðu því í sambærilegar flöskur í Fríhafnarverslunina. Það reyndist rétt og voru flöskur mannsins því opnaðar. Ekki tókst að greina hvað var í flöskunum á staðnum og var innihaldið því sent til greiningar á Rannsóknarstofu Háskólans í lyfjafræði, en manninum var sleppt. Niðurstöðurnar sýndu að brennisteinssýra var í flöskunum, en hún er leyfisskyld og telst innflutningur hennar brot á ávana- og fíkniefnalöggjöfinni. Maðurinn var handtekinn í gærmorgun, en hann neitar allri sök, að sögn Jóhanns og segist hafa keypt flöskurnar í Póllandi í þeirri trú að í þeim væri venjulegt áfengi. Honum var engu að síður birt ákæra í gær fyrir brot á ávana og fíkniefnalöggjöfinni og verður málið tekið fyrir á þriðjudag. Jóhann segir málið litið grafalvarlegum augum, og vísbendingu um að glæpamenn eða samtök í Austur-Evrópu komi að framleiðslu amfetamíns hér á landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×