Innlent

Íslenskum dreng bjargað úr flóðum

Matthías Þór Ingason hefur dvalið með enskum föður sínum og vinkonu hans á hóteli í svissneska bænum Engelberg í viku. Eftir þriggja daga stanlaust úrhelli lét vegurinn út úr bænum undan vatnselgnum og ruddist með flóðinu yfir nærliggjandi járnbrautateina. Við það rofnuðu samgöngur á jörðu niðri til og frá bænum og ekki aðra leið að fara en loftleiðina. Þyrlur hafa flutt fólk út úr bænum og borið mat til baka. Tólf kílómetra loftleið er til næsta bæjar. "Þetta var slæmt fyrst en hefur batnað," segir Matthías Þór sem meðal annars horfði upp á lítið hús verða að spýtnabraki ekki fjarri hótelinu. Þau dvelja á annarri hæð og hafa ekki verið í hættu en vatnið hefur náð upp að gluggum fyrstu hæðarinnar. Matthías Þór segist aldrei hafa óttast um líf sitt en viðurkennir að upplifunin sé sérstök."Ég hef ekki orðið hræddur og það er bara gaman að upplifa þetta." Það má líka heita undarleg sjón að horfa á endur synda um hótelgarðinn þar sem áður voru gras og gangstéttir. Í dag verða þau flutt með herþyrlu frá Engelberg til næsta bæjar, þaðan sem þau taka lest til Luzern og heldur Matthías af stað flugleiðina til Íslands á sunnudag. "Það hefur verið mjög erfitt að fylgjast með þessu héðan frá Íslandi," segir Þóra Birgitta Garðarsdóttir, móðir Matthíasar. Hún segir óvissuna hafa verið erfiðasta enda hafi hún aldrei vitað hvað myndi gerast næst. "Ég verð mjög fegin að fá hann heim," segir hún og bætir við að ættingjar og vinir hafi einnig haft þungar áhyggjur. Matthías býr í Njarðvík og átti eins og önnur íslensk börn að byrja í skóla í vikunni. Hann mætir á mánudag og hefur eflaust frá ýmsu að segja vinum sínum og skólasystkinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×