Innlent

Vara við gylliboðum

Norrænir neytendaumboðsmenn hafa kært til bandarískra stjórnvalda gylliboð um ferðavinninga til Karíbahafsins. Þeir sem standa að baki gylliboðunum hafa náð símleiðis til neytenda eða með því að hvetja þá til kaupa í gluggauglýsingum á Netinu. Mörgum neytendum finnst þeir hafa verið sviknir þegar líður á samtalið eða í kjölfarið þegar í ljós kemur að vinningurinn felst í afslætti eða ívilnun vegna ferða í Bandaríkjunum og í Karíbahafinu auk þess sem ferðin vestur um haf er á kostnað neytandans. Vinningurinn er því ekki svo ýkja spennandi. Norrænu neytendaumboðsmennirnir sendu bandaríska viðskiptaeftirlitnu, Federal Trade Commission, sameiginlegt bréf vegna þeirra bandarísku fyrirtækja sem nú þegar hafa náð sambandi við neytendur á Norðurlöndunum undir því yfirskyni að þeir hafi unnið ferð. Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, segir norræna umboðsmenn oft vinna saman að álíka málum. Þá var greiðslukortafyrirtækjunum, Visa, Mastercard og America Express, sent afrit af bréfinu og hvetur Gísli þá sem fallið hafa fyrir þessu að hafa samband við kortafyrirtækið sitt, ef stutt er liðið frá því að kortanúmer var gefið upp. Þá getur fólk einnig leitað til talsmanns neytenda. Gísli segir þetta ekki vera nýtt af nálinni og hafa tíðkast í nokkur misseri í Bandríkjunum. Hann sagði það vera tiltölulega nýtt að margir hafi fengið erindi. Hann sagðist vonast til að  staða mála skýrist því það hafi verið ástæðan fyrir fréttatilkynningunni. Hann sagði að neytyendur ættu að hafa varann á og taka ekki hverju sem er og ef þeir falla í gryfjuna þá væri rétt að hafa samband við talsmann neytenda og fá ráð. Jafnframt er hægt að óska eftir því að greiðslukortafyrirtækin gjaldfæri ekki greiðslu ef skammur tími er liðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×