Innlent

Ný krufningarskýrsla ekki heimiluð

Sakborningurinn sem hefur verið ákærður fyrir að verða öðrum manni að bana á kránni Ásláki í Mosfellsbæ í desember í fyrra hefur krafist þess að sérstakir matsmenn verði kvaddir til að fara yfir krufningarskýrsluna í málinu. Héraðsdómari hafnaði kröfunni sem lögð var fram að verjanda ákærða, Björns Ólafs Hallgrímssonar, í málinu sem kallað hefur verið Ásláksmálið. Verjandinn ákvað að skoða framhald málsins og hefur frest fram á mánudag til að kæra úrskurð héraðsdómara. Aðalmeðferð málsins fer fram 18. október næstkomandi en í því er maður á þrítugsaldri ákærður fyrir stórfellda líkamsárás á mann á sextugsaldri sem lést eftir að hafa fengið hnefahögg á hálsinn frá ákærða. Verjandinn byggði kröfu sína á því að framlögð krufningarskýrsla væri grundvallargagn í málinu og ætti að byggjast á frumgögnum en ekki á frásögn í lögregluskýrslum líkt og raunin væri. Skýrslugjafi hefði byggt niðurstöður sínar á upplýsingum í lögregluskýrslu en ekki eingöngu á rannsókninni sjálfri eins og rétt væri að gera. Réttarmeinafræðingur hefði því ekki gætt nægilegs hlutleysis við samningu skýrslunnar að mati verjanda og skjólstæðings hans. Að mati ákæruvaldsins var þetta hins vegar talið ótækt þar sem matsbeiðnin fæli í sér beiðni um endurskoðun á mati réttarmeinafræðings. Niðurstaða héraðsdóms var sú að ekkert væri fram komið á þessu stigi málsins sem gæfi ástæðu til að dómkveðja matsmenn til að leggja mat á atriði er vörðuðu dánarorsök hins látna þar sem ljóst er að teknar verða skýrlsur af réttarmeinafræðingi, heimilislækni og öðrum við aðalmeðferð málsins. Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×