Innlent

Ekki meiri fréttaskrif

Yfirmenn hjá Ríkisútvarpinu eru að íhuga framtíð Sigmundar Sigurgeirssonar, forstöðumanns svæðisútvarpsins á Suðurlandi, eftir óvægan pistil á bloggsíðu hans. Hann hefur nú verið leystur frá störfum við fréttir fyrir Ríkisútvarpið. Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær treysta yfirmenn frétta á Ríkisútvarpinu Sigmundi Sigurgeirssyni, forstöðumanni svæðisútvarpsins á Suðurlandi, ekki lengur til að skrifa fréttir eftir að hann úthúðaði forsvarsmönnum Baugs og bankastjórum KB-Banka á bloggsíðu sinni um miðjan ágúst. Þar hann kallaði hann meðal annars Jóhannes í Bónus og fjölskyldu hans hyski af ódýrustu sort og skítapakk. Í tilkynningu frá Boga Ágústssyni, forstöðumanni fréttasviðs sem hann sendi frá sér í gær sagði hann að það væri mat sitt og Óðins Jónssonar, fréttastjóra Útvarps að með skrifum sínum hafi Sigmundur sýnt slíkt dómgreindarleysi að þeir treystu honum ekki lengur til að vinna við fréttir í Ríkisútvarpinu. Sigmundur er því hættur í fréttunum en honum hefur þó ekki verið sagt upp hjá stofnuninni, þrátt fyrir sterkar skoðanir Boga og Óðins á málinu. Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri, sagði í samtali við fréttastofu í gær að lögfræðingur ríkisútvarpsins væri að fara yfir málið. Ekki náðist í Markús fyrir hádegisfréttir, vegna málsins. Sigmundur sjálfur er staddur erlendis og svarar ekki skilaboðum. Þá vildi Bogi Ágústsson, forstöðumaður fréttasviðs, ekkert um málið segja né Dóra Ingvadóttir, framkvæmdastjóri Útvarps.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×