Innlent

Haldnir til styrktar Björgu

Fjöldi tónlistarmanna kemur fram á tónleikum sem haldnir verða í Kerinu í Grímsnesi klukkan tvö á morgun til styrktar björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka. Röð báta á vatni sprengigígsins myndar svið fyrir listamennina, en gestir tylla sér í gróna hlíð Kersins. "Þetta eru þriðju tónleikarnir sem haldnir eru í Kerinu en slíkir tónleikar þykja mikil upplifun, ekki síst vegna magnaðs hljómburðar," segir í tilkynningu. Hlöðver Þorsteinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Bjargar, segir tónleikana hafa verið vel sótta og hlakkar mikið til helgarinnar. "Í fyrra voru hér um 3.000 manns í blíðskaparveðri og spáin fyrir helgina núna spillir ekki fyrir," sagði hann og kvað næg bílastæði við Kerið. Aðgangseyrir er 1.000 krónur, en frítt fyrir börn undir fermingu. Fram koma KK og Ellen Kristjánsdóttir, Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenórsöngvari, Ragnhildur Gísladóttir söngkona, Hreimur Heimisson söngvari úr Landi og sonum og Vignir Snær Vigfússon tónskáld og gítarleikari Írafárs, auk fjölda annarra. Tónleikunum stjórnar Árni Johnsen.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×