Innlent

Sláturhúsið aftur í gagnið

Verið er að leggja lokahönd á breytingar í sláturhúsinu í Búðardal. Dalaland, nýtt félag í eigu sveitarfélagsins hefur tekið við rekstri sláturhússins, en þar var ekkert slátrað síðasta haust. Ráðist var í breytingar á húsinu til að það fengi staðist ákvæði reglugerðar um sláturhús. "Landbúnaðarráðuneytið gefur löggildingu og svo embætti Yfirdýralæknis rekstrarleyfi," segir Haraldur Líndal Haraldsson sveitarstjóri sem er í forsvari fyrir Dalaland. Hann segir að ráðist hafi verið í framkvæmdir í samráði og með samþykki ráðuneytisins. "Við stefnum að því að vera komin með leyfi áður en vígslan fer fram 4. september." Náðst hafa samningar við kjötvinnsluna Norðlenska um kaup á afurðum Dalalands. Haraldur segir uppgang í Dalabyggð og þar spili væntanlega bættar atvinnuhorfur inn í. "Hér er einn að byggja hús, tveir aðrir búnir að fá úthlutað lóðum fyrir einbýlis og svo er aðili úr Reykjavík að hefja byggingu á sex leiguíbúðum í þremur parhúsum." Auk sláturhússins þá fjölgar störfum með fyrirhugaðri stækkun hjúkrunarheimilisins að Fellsenda í Dölum og með starfsemi ungmennabúða að Laugum, sem hófu rekstur um áramót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×