Innlent

Unnið að breytingum á gatnamótum

Slökkt verður á umferðarljósum á gatnamótum Kringlumýrar- og Miklubrautar á sunnudaginn kemur frá kl. 8 um morguninn og fram eftir degi vegna breytinga á gatnamótnum. Þá verða ljósin einnig slökkt í um þrjá tíma eftir morgunumferð á mánudeginum vegna enduruppsetningar á stjórnbúnaði. Lögregla mun sjá um umferðarstjórn á gatnamótunum á meðan á þessu stendur en á meðan umferð er handstýrt verður lokað fyrir vinstribeygjustrauma. Vegfarendur eru hvattir til að velja aðrar leiðir eftir því sem unnt er á meðan framkvæmdum stendur. Eftir breytinguna verða allir umferðastraumar ljósastýrðir, einnig vinstribeygjustraumar og er það gert til að auka umferðaröryggi. Eins og margir borgarbúar hafa tekið eftir hafa gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar verið breikkuð og eru nú þrjár akreinar fyrir alla beina umferðarstrauma og tvær akreinar fyrir alla vinstribeygjustrauma. Þá var í sumar útbúin sérakrein fyrir strætisvagna á norðurakbraut Miklubrautar frá bensínstöð austan Kringlumýrarbrautar vestur fyrir Stakkahlíð. Fram kemur á vef framkvæmdasviðs Reykjvíkurborgar að til að koma umferðarljósum með greinilegum hætti fyrir á gatnamótunum verði settar upp sérstakar umferðarljósabrýr og verður unnið við uppsetningu þeirra í dag. Gert er ráð fyrir að brýrnar verði hífðar á sinn stað í kvöld og hefjast þær framkvæmdir eftir kl. 19.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×