Innlent

Hvassviðri gangi niður í nótt

Mjög vont ferðaveður hefur verið á Austurlandi í nótt og í morgun. Veðurstofan segir hvassviðrið ganga niður í kvöld og nótt. Sérstaklega hefur verið vont ferðaveður á milli Djúpavogs og Hafnar í Hornafirði, en Veðurstofan sendi út stormviðvörun í morgun. Vegna veðursins var mikið um grjóthrun í Hvalsnes- og Þvottárskriðum á veginum milli Djúpavogs og Hafnar í nótt. Lögreglan vill hvetja ökumenn til að fara varlega og að varhugavert sé að fara þessa leið á húsbílum eða með fellihýsi í eftirdragi. Theódór Hervarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir aðspurður að versta veðrið hafi verið á Austfjörðunum en það sé eins og það hafi aðeins dregið úr því síðustu tímana. Aðspurður hvort óveðrið fari yfir landið neitar hann því og segir að veðrið verði á svipuðum nótum í dag á Austfjörðum en ekki þó eins hvasst og það var í gærkvöldi og nótt. Svo eigi að draga úr hvassviðrinu áfram á morgun. Spurður hvort hægt sé að kalla þetta fyrstu haustlægðina segist Theódór ekki vilja fara út í flokkun. Það hafi þó komið nokkuð kalt loft með lægðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×