Innlent

Smygildi og skorðuð alhæfing

Nýtt Tölvuorðasafn, hið fjórða í röðinni, kom út í gær. Er það mikið að vöxtum og geymir 7.700 íslensk heiti og 8.500 ensk heiti á 6.500 hugtökum. Íslenskt Tölvuorðasafn kom fyrst út 1983 og voru í því tæp 1.000 íslensk heiti á um 700 hugtökum. Í næstu útgáfu, sem kom út 1986, voru íslensku heitin 3.100 og hugtökin 2.600 og í þriðju útgáfunni voru heitin orðin 5.800 og hugtökin 5.000. Meðal þess sem finna má í Tölvuorðasafninu er þýðing og útskýring á tölvuorðinu cookie. "Smygildi - gagnahlutur sem vefþjónn vistar í geymslu notanda og hefur síðan aðgang að til að auðvelda samskipti. Oftast er smygildi vistað án vitundar notandans." Og ef áfram er flett má finna útskýringu á hugtakinu Skorðuð alhæfing. Um hana segir: "Alhæfing hugtaks sem fullnægir þeim skilyrðum sem hugtökum eru sett og eru notuð til þess að útskýra tiltekna staðreynd eða atburð." Stefán Briem ritstýrði Tölvuorðasafninu en verkið er afrakstur áratuga starfs orðanefndar Skýrslutæknifélags Íslands, sem stendur að útgáfu þess í samvinnu við Hið íslenska bókmenntafélag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×