Innlent

Hollenska skútan fundin

Hollenska skútan Daisy, sem leitað hafði verið síðan á laugardag, fannst snemma í gærmorgun um 160 mílur suðvestur af Reykjanesi. Skipstjóri skútunnar er þýskur en auk hans voru tveir aðrir um borð en engan sakaði. Neyðarbauja sem féll útbyrðis í vonskuveðri á laugardag gaf frá sér neyðarkall um hundrað sjómílur norðaustur af Hvarfi á Grænlandi. Í kjölfarið var farið að grennslast fyrir um skútuna og fór norskur togari sem var í grenndinni til leitar á svæðinu án árangurs. Liðsinnis nágrannaríkjanna var leitað þar sem staðsetning neyðarkallsins var langt utan drægi þyrlna Landhelgisgæslunnar og ekki var mögulegt að senda út íslenskar flugvélar til leitar. Þyrla frá Grænlandi og vél frá breska flughernum fóru því til leitar um helgina en það var danska varðskipið Vædderen sem fann skútuna í gærmorgun. Skútan er talin hafa lagt upp frá Grænlandi snemma í síðustu viku á leið til Reykjavíkur. Daisy hélt för sinni hingað til lands áfram í gær og er væntanleg til hafnar í Reykjavík síðdegis í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×