Innlent

FÍB safnar enn undirskriftum

Yfir tólfþúsund manns hafa skrifað undir áskorun Félags íslenskra bifreiðaeigenda, til stjórnvalda, um að draga úr sköttum á eldsneyti vegna mikillar hækkunar á olíu á heimsmarkaði. Fjármálaráðherra hefur raunar þegar synjað beiðni FÍB um lægri skatta á eldsneyti. Félagið ætlar þó ekki að láta þar við sitja heldur er nú í gangi undirskriftasöfnun gegn óhóflegu eldsneytisverði. Í erindi FÍB til stjórnvalda segir að fordæmi séu fyrir inngripi í eldsneytisverð frá fyrri árum m.a. í tíð núverandi ríkisstjórnar. Nú þegar verð á bensíni og dísilolíu sé í sögulegu hámarki sé það eðlileg krafa að dregið sé úr ofursköttum á eldsneyti. Til að styrkja þessa sjálfsögðu kröfu hafi FÍB sett af stað undirskriftasöfnun á heimasíðu félagsins þar sem fylgjendur lægri skatta á eldsneyti geti skráð nöfn sín og þar með hug sinn. Hægt er að skrá sig með því að fara inn á fib.is. Runólfur Ólafsson, segir að undirskriftalistinn verði væntanlega afhentur fjármálaráðherra í vikulokin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×