Innlent

Óttast um framtíð líknardeildar

Stjórn Íbúasamtaka Vesturbæjar Kópavogs hefur áhyggjur af breytingum í í bæjarhlutanum sem Kópavogsbær ætlar að ráðast í. Á aðalfundi samtakanna, sem haldinn verður í Kársnesskóla klukkan átta í kvöld, stendur til að ræða sérstaklega skipulagsmál á Kópavogstúni og í Vesturbæ Kópavogs. Stjórn íbúasamtakanna segir fyrirhugað er að fjölga íbúum í Vesturbænum um 3.000 manns og leggja af stóran hluta atvinnustarfsemi á Kársnesinu og harmar hversu litlar umræður hafi orðið um fyrirætlanir bæjarins. Pétur Eysteinsson, formaður íbúasamtakann, segir áherslu verða lagða á að fá framlengdan umsagnarfrest fram yfir fyrirhugað íbúaþing í bænum í haust. "Þannig geta íbúarnir fengið að tjá sig um þetta á eðlilegan hátt," segir hann og telur auglýsingatíma frá seinni hluta júlí og fram í seinni hluta þessa mánaðar ekki vera nægan. Frestur til að skila inn athugasemdum vegna skipulagsins rennur út á morgun. "Svona stórt mál þar sem gjörbreytt er öllum umferðarstefnum um bæinn og fjarlægð jafnmikil starfsemi og er hjá Landspítalanum þarna niður frá og nýbúið að ákveða bryggjuhverfi kallar eiginlega á að fólk fái að ræða og melta þessa hluti betur. Það er frumkrafan að meiri tími fáist til að ræða hlutina." Pétur segir marga uggandi um framtíð líknardeildar Landspítalans og telur skrítið að bærinn hafi forystu um flutning þeirrar starfsemi frá Kópavogstúni. Gunnsteinn Sigurðsson, formaður skipulagsnefndar Kópavogsbæjar, vísar á bug gagnrýni íbúasamtakanna og segir auglýsingaferli vegna skipulagsins samkvæmt bæði lögum og venjum. "Til viðbótar var svo skipulag við Kópavogstúni tekið til sérstakrar kynningar fyrir rúmu ári síðan, áður en það var fullunnið. Við höfum farið þá leið að funda með íbúum áður en breytingar eru auglýstar formlega," segir hann og telur vel hafa verið staðið að kynningu hugmynda að skipulagsbreytingum. "Það má alltaf deila um alla hluti en okkar markmið hefur verið að halda íbúunum vel upplýstum." Þá segir Gunnsteinn skipulagshugmyndina á Kópavogstúni gera ráð fyrir að mörg húsanna sem þar eru fyrir geti staðið áfram. "Það er ekkert verið að hrekja Landspítalann í burtu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×