Innlent

Gjaldfrjáls leikskóli á Súðavík

Á vef Bæjarins besta á Ísafirði kemur fram að Fræðslu- og tómstundanefnd Súðavíkurhrepps og hreppsnefnd Súðavíkur samþykktu í gær formlega nýja gjaldskrá fyrir leikskólann í Súðavík. Með hinni nýju gjaldskrá verður leikskólinn í raun gjaldfrjáls. Er Súðavíkurhreppur fyrst sveitarfélaga á Íslandi til þess að stíga það skref að gera allt nám gjaldfrjálst. Í hinni nýju gjaldskrá kemur fram að ekkert gjald verður innheimt fyrir dvöl í leikskólanum fyrir allt að átta tíma á dag. Eins og áður munu elstu börn leikskólans njóta samkennslu með yngstu börnum grunnskólans en Súðvíkingar voru frumkvöðlar að slíkri samkennslu hér á landi. Í stefnumótun Súðavíkurhrepps sem unnin var í kjölfar íbúaþings kom fram að stefna bæri að gjaldfrjálsum leikskóla og nú hefur sú stefna verið formlega staðfest með samþykki sveitarstjórnar. Þetta nýja fyrirkomulag tekur gildi 1. september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×