Innlent

40 starfsmenn vantar í 9 leikskóla

Af fimmtán leikskólum í Grafarvogi og Grafarholti sem Fréttablaðið spurðist fyrir hjá í gær eru aðeins sex fullmannaðir, en hina vantar nú þegar starfsmenn eða sjá fram á að þá vanti upp úr næstu mánaðamótum þegar sumarafleysingafólk hættir störfum. Auglýsingar eftir nýju starfsfólki hafa þó skilað einhverjum viðbrögðum sem og umfjöllun síðustu daga, en þó engan veginn nægilegum. Mannekla á leikskólum er vandamál víðar á höfuðborgarsvæðinu en ástandið virðist áberandi verst í þessum hverfum. "Þessi hverfi eru úr leið og fólk úr fjarlægari hverfum er ekki viljugt að keyra hingað til vinnu, allra síst á þessum launum," segir Ingibjörg Eyfells, leikskólastjóri í Geislabaug í Grafarholti. "Við ráðum því langoftast fólk úr hverfinu." Að sögn Ingibjargar hefur uppbygging leikskóla verið mjög hröð síðustu ár og menntun kennara ekki náð að fylgja því eftir. "Það vantar leikskólakennara í landinu." Hún segir að vegna lágra launa haldist leikskólum almennt illa á fólki. Hún segir ástandið hafi verið miserfitt milli ára en það sé óvenju erfitt núna þar sem nægt framboð er af annarri vinnu. Ingibjörgu vantar átta starfsmenn sem stendur, og leikskólinn er ekki fullnýttur. Yfir þrjátíu börn sem búið er að lofa vist þar geta ekki mætt fyrr en búið er að fá starfsfólk. Fleiri skólar í þessum hverfum eru í svipaðri stöðu, þótt engan vanti jafnmarga starfsmenn. Í öðrum skólum vantar tvo til fjóra starfsmenn og alls vantar nú um 25 starfsmenn. Í það minnsta einn leikskóli í Grafarvogi sér fram á að vísa börnum heim í dag, en fæstir eru svo illa staddir sem stendur. Nokkrir skólar til viðbótar gætu neyðst til að vísa börnum frá upp úr næstu mánaðamótum ef ekki rætist úr starfsmannamálum þeirra. Þá verður opnaður nýr leikskóli með þrjár deildir við Gvendargeisla í Grafarholti á næstu vikum og verða fimmtán störf við hann auglýst um eða eftir næstu helgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×