Innlent

Þrýstingi beitt á Ólafsfirðinga

Hart var lagt að bæjarstjórnarmönnum á Ólafsfirði að ræða við Norðurorku á Akureyri um sölu á Hitaveitu Ólafsfjarðar frekar en önnur orkufyrirtæki, bæði af bæjarstjórnarmönnum á Akureyri og einnig þingmönnum kjördæmisins. "Þeir voru æfir yfir því að við skyldum vilja selja hitaveituna, þar sem það munu verða sameiningarkosningar í október," segir Gunnar Reynir Kristinsson bæjarfulltrúi Ó-listans. Hann segir einnig að Rafmagnsveitur ríkisins hafi upphaflega sýnt mikinn áhuga en dregið sig í hlé vegna þrýstings að ofan. "Það var ýtt á iðnaðarráðherra að fá RARIK til að halda að sér höndum." Að sögn Gunnars er sala Hitaveitunnar neyðarúrræði hvort sem af sameiningu verður eða ekki. Bærinn skuldar nálægt milljarði króna og vonast er til að yfir hálfur milljarður fáist fyrir Hitaveituna. Viðræður við Norðurorku á Akureyri eru að hefjast um þessar mundir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×