Erlent

Óttast að gripið verði til vopna

Rýming síðustu landtökubyggða gyðinga á Gaza gekk stórátakalaust í gær. Hins vegar beinast sjónir manna í frekari mæli að Vesturbakkanum þar sem rýma á fjórar byggðir í næstu viku. Þar kom í gær til átaka milli hermanna og landtökumanna í bænum Sanúr þegar hermenn undirbjuggu brottflutning landtökumanna sem fara á fram á þriðjudag. Um tvö þúsund harðlínumenn hafa komið sér fyrir í Sanúr til að berjast gegn brottflutningnum. Talið er að þeir muni beita vopnavaldi og því er líklegt að hermenn verði vopnaðir við brottflutning landtökumanna af Vesturbakkanum en óvopnaðar öryggissveitir sáu um brottflutninginn á Gaza. Hermenn brutust gegnum götuvígi og víggirtar girðingar í fjórum landtökubyggðum í gær og fylgdu társtokknum íbúum í rútur sem fluttu þá á brott. Ekki er búist við miklum átökum þegar síðasta landtökubyggðin á Gaza verður rýmd í dag. Netzarim er suður af Gaza-borg, þar búa um 400 manns og var hún ein af fyrstu byggðum landnema. Þar með hefur 21 landtökubyggð verið rýmd á Gaza en samkvæmt ákvörðun Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraela verða að auki rýmdar fjórar byggðir á Vesturbakkanum. Sharon lýsti í gær yfir vanþóknun á ofbeldisfullri andstöðu við brottflutningana og kallaði aðgerðir landtökumanna spellvirki. Áður en brottflutningar Ísraela hófst í síðustu viku höfðu yfirvöld í Ísrael og Palestínu samþykkt að heimili landnema yrðu rudd til að rýma fyrir palestínskum byggingum. Niðurrif á heimilum landtökumanna hófst í gær þegar jarðýtur jöfnuðu fjölda húsa við jörðu í bænum Nissanit. Flest húsin eru einbýlishús en í staðin verða byggð fjölbýlishús til að stemma stigu við vaxandi húsnæðisvanda Palestínumanna. Þá hafa Ísraelar samþykkt að borga andvirði rúmra þriggja milljarða króna til að fjarlægja rústir landnemabyggða. Búist er við að öll hús landtökumanna á Gaza-svæði verði brotin niður á næstu tveimur vikum sem er helmingi skemmri tími en áður var talið. Þá mun herinn einnig fjarlægja höfuðstöðvar sínar á Gaza áður en palestínsk yfirvöld taka við völdum eftir um það bil mánuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×