Erlent

Bréf frá Saddam birtist í blöðum

Bréf Saddams Hussein til óþekkts vinar var birt í tveimur dagblöðum í Jórdaníu um helgina. Þar heitir Saddam því að hann muni fórna sjálfum sér fyrir málstað Palestínu og Íraks. Eftir því sem næst verður komist barst bréfið í gegnum Alþjóða Rauða Krossinn til gamals vinar Saddams sem búsettur er í Jórdaníu en vildi ekki láta nafns síns getið. Baath-flokkurinn í Jórdaníu afhenti fjölmiðlum bréfið. Síðan Saddam var handsamaður  í desember 2003 hefur hann eingöngu sent bréf til ættingja. Alþjóða Rauði krossinn vinnur nú að því að kanna áreiðanleika bréfsins. Í bréfinu segir Saddam meðal annars: "Lífið er tilgangslaust nema með hliðsjón af trú, ást og sögu þjóðar okkar," og er talið líklegt að Saddam velti þannig fyrir sér mögulegan dauðadómi yfir sér. "Sál minni og tilveru skal fórnað verða fyrir okkar dýrmætu Palestínu og hið elskaða, þolinmóða og þjáða Írak," segir í bréfinu sem lýkur með orðunum: "Bróðir minn, elskaðu fólkið þitt, elskaðu Palestínu, elskaðu þjóð þína, lengi lifi Palestína."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×