Innlent

Tugþúsundir í miðbænum

Gífurlegur mannfjöldi kom saman í miðbæ Reykjavíkur til að taka þátt í atburðum Menningarnætur í gærdag og fram eftir kvöldi. Hámarki náðu hátíðahöldin með tónleikum á Miðbakkanum og flugeldasýningu að þeim loknum. Hátíðahöldin fóru vel fram og hafði ekkert komið upp á þegar Fréttablaðið fór í prentun. Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn sagði að fleira fólk hafa verið í bænum í gærdag en í fyrra. Þá er talið að um hundrað þúsund manns hafi verið í bænum þegar mest var. Vinkonurnar Ásta Lind og Rakel, sem báðar eru fjórtán ára voru í langri röð fyrir framan draugahúsið í Austurstræti um kvöldmatarleytið í gær. "Við komum í bæinn um þrjúleytið og þetta er búið að vera geggjað," sögðu þær þar sem þær biðu spenntar eftir að komast inn að skoða draugana. Skemmtilegast sögðu þær þó að hitta allt fólkið í miðbænum og þær voru staðráðnar í að vera í bænum allt kvöldið, í það minnsta þar til flugeldasýningin væri afstaðin. "Alveg frábært," sagði Nína úr Hafnarfirði aðspurð um hvernig henni þætti Menningarnótt. "Ég er búin að vera sérstaklega ánægð með kristilega dagskrá sem boðið hefur verið upp á hér á Ingólfstorgi í dag." Til marks um þann mikla mannfjölda sem mætti í miðbæ Reykjavíkur og tók þátt í atburðum Menningarnætur má nefna að annað árið í röð var slegið þátttökumet í Reykjavíkurmaraþoni. 4.136 tóku þátt og voru slegin þátttökumet í öllum vegalengdum. Hjördís Guðmundsdóttir hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur var hæstánægð og sagði þetta góðan árangur, ekki síst í ljósi þess að veðurspáin hafi verið óhagstæð, það hafi þó ekki haft áhrif að ráði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×