Innlent

Grænmetissnakk á markað

Sælgætispökkunarvélar eru notaðar til að pakka nýjasta snakkinu á markaðnum inn í umbúðir. Það hljómar kannski ekki vel en staðreyndin er sú að innihaldið er eitt hollasta snakk sem fáanlegt er á markaðnum. Íslenska grænmetið streymir á markaðinn þessa dagana sem aldrei fyrr og nú má sjá nýjung, íslenskt grænmeti sem snakk. Í fyrstu verður boðið upp á fjórar tegundir: radísur, brokkolí, gulrætur og blómkál. Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, segir að verið sé að bregðast við eftirspurn neytenda eftir hollu snakki. Sölufélagið hafi fengið fjölgmargar fyrirspurnir um hvort ekki sé hægt að vinna meira úr grænmetinu og hafa það meira tilbúið. Nú sé það orðið raunin. Gunnlaugur segir þróunina hafa verið þá að fólk vilji meiri þægindi og nú sé komin vörulína sem sé hugsuð sem skyndifæði. Það sé sælgætispökkunarvél sem pakki vörunni, en garðyrkjumenn vilji meina að þetta sé sælgæti en um leið hollustuvara. Gunnlaugur er bjartsýnn á að grænmetissnakkið verði vinsælt í nestispökkum skólakrakkanna sem skunda í skólana í næstu viku. Hann segir reynsluna hafa sýnt það að salan taki mikinn kipp þegar skólarnir byrji. Það virðist mikil áhersla á hollustu í september og aftur í janúar og salan fari mjög vel af stað þetta árið. Gunnlaugur skorar á alla, unga sem aldna, að prófa að skipta hinu hefðbundna snakki út af og til fyrir grænmetissnakkið. Ef fólk setji það í skál fyrir framan sjónvarpið lofi hann því að hún verið tóm þegar kvöldið er úti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×