Innlent

Geta boðið ódýrari lán

Innan Íbúðalánasjóðs er unnið að því að lækka vexti á íbúðalánum enn frekar. Nú eru vextir íbúðalána sjóðsins 4,15 prósent eins og hjá bönkum og sparisjóðum. Gangi breytingarnar eftir gætu vextirnir farið niður fyrir fjögur prósent. Þetta kom fram í máli Halls Magnússonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, sem eru sviðstjórar hjá Íbúðalánasjóði, þegar sex mánaða uppgjör sjóðsins var kynnt. Sögðu þeir svigrúm til að lækka svokallað uppgreiðsluálag sem lagt væri ofan á vexti sjóðsins. Nú næmi þetta álag um 0,25 prósentum og væri til að mæta uppgreiðsluáhættu, en sjóðurinn tekur ekkert gjald fyrir uppgreiðslu lána eins og þekkist hjá bönkum. Í hálfimm fréttum KB banka í gær sagði að þetta gæti aukið áhættu í rekstri Íbúðalánasjóðs og þenslu í þjóðfélaginu. Það gengi þvert gegn stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×