Innlent

Á þriðja hundrað viðburða

Menningarnótt Reykjavíkur er haldin í dag, í tíunda sinn. Hátíðin hófst með maraþonhlaupi í morgun og síðan rekur hver atburðurinn annan. Sif Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri Menningarnætur, segir dagskrána gríðarlega fjölbreytta. Menningarnóttin hafi verið sett klukkan ellefu og þá hafi hafist dagskrá víða um miðbæinn, á Laugarvegi, Lækjargötu og Austurstræti svo dæmi séu tekin, og svo bætist við nýir dagskrárliðið á hverjum klukkutíma þangað til klukkan ellefu í kvöld. Aðspurð um fjölda viðburða segir Sif að þeir séu á þriðja hundrað, en þeir séu misstórir og mismannmargir. Sif segir aðeins nýjar áherslur uppi núna. Hátíðin sé orðin gríðarlega stór og það útheimti mikla vinnu að skipuleggja borgina þannig að hún geti tekið á móti þeim fjölda sem sæki hátíðina. Því hafi verið unnið mikið með lögreglu og framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar að því að gera borgina að glæsilegum móttökustað fyrir gestina. Spurð hvort borgin geti tekið við mannhafinu segir Sif að aðstandendur hátíðarinnar telji sig hafa staðið sig alveg prýðilega. Sif segir veðrið betra en hún þorði að vona þegar hún fylgdist með veðurfréttum í gærkvöldi, nú sé logn og blíða í miðborginni. Hún býst við miklum mannfjölda á hátíðina, í kringum 100 þúsund manns líkt og í fyrra. Dagskrá menningarnætur má sjá á heimasíður Reykjavíkurborgar, slóðin er reykjavik.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×