Erlent

Vioxx tekið af markaði hér í fyrra

Kviðdómur í Texas dæmdi í gær ekkju Bandaríkjamanns sem lést í kjölfar notkunar á verkjalyfinu Vioxx, 253 milljónir Bandaríkjadala í bætur. Það jafngildir 16,5 milljörðum króna. Vioxx var mikið notað hérlendis þar til í fyrra. Mál ekkjunnar Carol Erns, er aðeins eitt 4200 skaðabótamála sem eru í uppsiglingu í Bandaríkjunum vegna notkunar á Vioxx. Hlutabréf í Merck's-lyfjarisanum sem framleiddi lyfið hríðféllu eftir að dómurinn var upp kveðinn. Lögmenn Merck's hafa lýst því yfir að dómnum verði áfrýjað og er búist við að bótaupphæðin lækki verulega á næsta dómstigi. Tólf manna kviðdómur var tíu og hálfan tíma að komast að niðurstöðu og sagði lögfræðingur ekkjunnar að þetta sýndi lyfjafyrirtækjum að þau gætu ekki komist upp með að fela staðreyndir, þau yrðu að segja frá því góða, því slæma og því ljóta, the good the bad and the ugly, eins og hann orðaði það, um lyfin sem þau framleiða. Fyrirtækinu er gefið að sök að hafa leynt vitneskju um hættuleg aukaáhrif lyfsins, en rannsóknir sýndu að sá sem tók það í meira en átján mánuði var í tvöfalt meiri hættu að fá hjartaáfall. Merck´s seldi Vioxx fyrir meira en 160 milljarða króna árlega þegar mest lét. Vioxx var tekið af markaði á Íslandi í október í fyrra eftir að þessar hættulegu aukaverkanir komu í ljós, en það var mikið notað hérlendis, einkum af gigtarsjúklingum. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi látist vegna þess hér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×