Innlent

Búist við fjölmenni í miðbæinn

Búist er við fjölda fólks á Menningarnótt en þó færri gestum en á síðasta ári þegar 104.000 manns voru í miðbænum. "Það verður prýðilegasta veður yfir daginn," segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur. "Það verða smá skúrir fyrripartinn en þornar upp þegar líður á daginn en vindurinn verður eilítið meiri með kvöldinu. Hitinn verður 10-14 stig yfir daginn." Miðbærinn verður lokaður fyrir almennri bílaumferð í dag en hægt er að leggja við Háskólann, á Skólavörðuholti eða hjá Kjarvalsstöðum að sögn Sifjar Gunnarsdóttir hjá Höfuðborgarstofu. Einnig verður opið í þremur stærstu bílastæðahúsunum. Strætisvagnar Reykjavíkur stoppa á Skothúsvegi þegar komið er í bæinn og í Vonarstræti áður en farið er úr bænum, en ekki á Hlemmi eins og vant er. Dagskránni lýkur með flugeldasýningunni klukkan ellefu og eftir það eiga börn ekki að vera ein í bænum. Annast er um týnd börn á efri hæð Hressingarskálans. Rauði krossinn verður með tjald á Miðbakkanum nærri Hafnarhúsinu og sjúkrabílar verða fyrir utan menntamálaráðuneytið í Sölvhólsgötu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×