Innlent

Vill kaupa heilt iðnaðarsvæði

"Seltjarnarnesbær hefur ekki tekið neina formlega afstöðu til þessara viðskipta," segir Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Félag undir stjórn Sigurjóns Sighvatssonar hefur gert flestum eigendum iðnaðarfyrirtækja að Bygggörðum vestast á nesinu kauptilboð í eignir sínar og telja nokkrir eigendur víst að Sigurjón sé að horfa til þess að eiga umræddar lóðir þegar og ef bæjaryfirvöld ákveða að breyta skipulagi svæðisins úr iðnaðarsvæði í íbúðabyggð. Gerir það lóðirnar eðlilega mun verðmætari enda fækkar óðum þeim svæðum á stór-Reykjavíkursvæðinu sem hagnýt eru til frekari íbúðabyggðar. Þegar hafa þrír eigendur í götunni gengið að tilboði Sigurjóns en andstaða er meðal annarra enda þykja tilboðin ekki mikið yfir núvirði. Jónmundur segir málið hafa verið rætt við gerð nýs aðalskipulags fyrir bæinn og ekki sé útilokað að skipulag þessa eina iðnaðarsvæðis bæjarins taki breytingum. "Það er verið að vinna að skipulagsmálum til framtíðar en hvenær og þá með hvaða móti breytingar yrðu hefur engin ákvörðun verið tekin um. Um þetta hafa skapast umræður í bæjarfélaginu gegnum tíðina og ekki útiokað að skipulagið taki breytingum þegar fram líða stundir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×