Erlent

Náðugt hjá Ísraelsher

Brottfllutningi landtökumanna af Gaza-svæðinu miðar vel áfram. Ekki kom til neinna alvarlegra átaka á svæðinu í gær. Miðað við róstusaman fimmtudaginn þegar mótmælendur skvettu sýru á hermenn í sýnagógum í Neve Dekalim og Kfar Darom landnemabyggðunum áttu ísraelsku hermennirnir náðugan dag í Gadid í gær. Þar voru nokkrir mótmælendur saman komnir en þeir samþykktu eftir viðræður við lögreglumenn að yfirgefa svæðið án mótþróa. Nokkrir klifruðu þó upp á húsþök og hrópuðu þaðan ókvæðisorð. Í Kerem Atzmona hverfinu jöfnuðu jarðýtur Ísraela nokkur hjólhýsi við jörðu. Þau eru fyrstu híbýlin sem rifin eru í tengslum við lokun byggðanna. Palestínumenn í bænum Rafah söfnuðust saman í hliði yfirgefinnar landnemabyggðar og lofuðu Guð fyrir að reka Ísraela á brott. Nú hefur þorri landnemabyggða á Gaza-ströndinni verið rýmdur, fólk býr aðeins í fjórum þeirra. Yfirmaður brottflutningsins sagðist búast við að honum yrði lokið á þriðjudaginn en það er mun fyrr en í fyrstu var búist við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×