Erlent

Al-Kaída lýsti ábyrgð

Þremur eldflaugum var skotið á skotmörk í Jórdaníu og Ísrael í gær. Ein sprakk rétt hjá bandarísku herskipi en önnur hafnaði nærri flugvelli. Einn maður lést í árásinni. Eldflaugaárásin í gærmorgun var gerð frá pakkhúsi í jórdönsku hafnarborginni Aqaba en hún stendur við Rauðahafið en þaðan var þremur Katyusha-eldflaugum skotið áleiðs. Ein þeirra hafnaði nærri bandaríska herskipinu USS Ashland sem lá bundið við bryggju í borginni en það hafði verið við heræfingar á flóanum. Jórdanskur hermaður beið bana þegar sprengjuhleðsla flaugarinnar sprakk. Önnur flaugin lenti nærri sjúkrahúsi skammt frá vöruskemmunni en ekki er vitað hvort hún hafi valdið manntjóni. Sú þriðja lenti á leigubíl nærri flugvellinum í ísraelsku borginni Eilat, sem er fimmtán kílómetra frá Aqaba, en sú flaug sprakk þó ekki. "Ég heyrði mikinn hávaða og bíllinn minn nötraði," sagði Meir Fahran bílstjóri en hann meiddist lítillega. Abdullah Azzam herdeildirnar, samtök tengd al-Kaída, hafa lýst yfir ábyrgð á tilræðinu en ekki er vitað hversu áreiðanleg sú yfirlýsing er. Lögreglan leitar nú fjögurra manna sem leigðu pakkhúsið. Þeir eru íraskir og egypskir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×