Innlent

Borgin og flugfélög ræða flugvöll

Fulltrúar FL Group og Flugfélags Íslands hafa rætt við borgaryfirvöld um möguleikan á nýjum Reykjavíkurflugvelli á Lönguskerjum. Formaður skipulagsráðs segir viðræðurnar skref í átt að því að lausn finnist á málinu. "Ég tel að nú séum við að ná umræðunni í átt að lausnum og að sú stefna sem málið hefur tekið sé mjög jákvæð," segir Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, en fulltrúar FL Group og Flugfélags Íslands gengu á fund stýrihóps um heildarskipulag Vatnsmýrinnar á dögunum. Dagur segir að það geti markað vatnaskil að flugrekstraraðilar séu nú tilbúnir að vinna að nýjum lausnum sem breið sátt geti skapast um. "Menn hafa verið sammála um að ná þessari umræðu upp úr skotgröfunum og heiðurinn að þessari opnun á umræðuna eiga forsvarsmenn FL Group og Flugfélags Íslands en auk þess eiga auðvitað samgönguráðherra og borgarstjóri sinn góða þátt í að málið sé loks komið í uppbyggilegan farveg. Frá flugtæknilegu sjónarmiði töldu fulltrúarnir Álftanes og Löngusker bestu kostina af þeim sem nefndir hafa verið í grennd við höfuðborgarsvæðið. Líklegast eru Löngusker þó raunhæfust út af ýmsum ástæðum, þar á meðal umhverfissjónarmiðum. Fulltrúarnir lýstu sig mjög reiðubúna að fullkanna þessa kosti ef það gæti orðið til þess að eyða óvissu um starfsumhverfi innanlandsflugs en öllum er þó ljóst að það er háð því að það leiði ekki til kostnaðar sem leggist á reksturinn sjálfan," segir Dagur. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir félagið í góðu samstarfi við borgina og samgönguyfirvöld og viðræðurnar sem nú ættu sér stað, væru í mjög jákvæðum farvegi. "Okkar fyrsti kostur fyrir Reykjavíkurflugvöll er Vatnsmýrin og við höfum ítrekað það áður. Við höfum hagsmuni okkar farþega að leiðarljósi og að sem minnst röskun sé fyrir okkar farþega. Ég held að fólk vilji hafa flugvöll í Reykjavík og það er það sem við erum að reyna að ganga út frá," segir Árni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×