Innlent

Tíu börn send heim dag hvern

Til aðgerða kemur á leikskóla í Grafarvogi að óbreyttu á mánudag vegna manneklu en starfsfólk vantar í þrjár stöður við leikskólann. Formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar fundar í dag með leikskólastjórum til þess að fara yfir stöðuna. Bergljót segir að gert sé ráð fyrir því að börn verði send heim tvo daga í viku af hverri deild. Þá verði að loka leikskólanum klukkan fjögur á daginn í stað hálfsex. "Við getum ekki gengið nær starfsfólki okkar en þetta," segir Bergljót. Bergljót segir að enn vanti starfsfólk í þrjár stöður við leikskólann, þrátt fyrir að tekist hafi að ráða einn starfsmann nú í vikunni. "Við tökum eina viku fyrir í senn og vonumst svo til þess að úr rætist," segir Bergljót. Foreldrar hafa sýnt málinu mikinn skilning að sögn Bergljótar. "Foreldrar hafa jafnvel hringt hingað og boðist til þess að koma og hjálpa til," segir hún. Fyrir liggur að ástandið á fleiri leikskólum í Grafarvogi er slæmt og grípa þarf til aðgerða þar eftir mánaðamót ef ekki næst að ráða fleira starfsfólk. Til aðgerða kemur á leikskólanum Fífuborg í Grafarvogi þann 5. september ef ekki tekst að ráða fleiri starfsmenn að sögn Elínar Ásgrímsdóttur leikskólastjóra. Hún kveðst þó bjartsýnni nú en fyrir nokkrum dögum um að takist að ráða starfsfólk. "Hagur okkar hefur vænkast nokkuð," segir hún. Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar, boðaði leikskólastjóra til fundar nú í morgunsárið til þess að ræða stöðuna í ráðningarmálum og hugsanlegar aðgerðir til úrlausna. "Ég veit að í sumum skólum eru umtalsverð vandræði vegna mannaráðninga," segir Stefán Jón. "Hins vegar er staðan í heildina ekki jafn slæm og hún leit út fyrir að vera í upphafi vikunnar og hún er hugsanlega ekki verri en á undanförnum árum. Meiri vandi blasir þó við í einstaka skóla." Stefán Jón segir fátt hægt að gera við því að ekki fáist fólk til starfa. "Ýmsum hugmyndum hefur þó verið velt upp, eins og að fá foreldra til þess að hjálpa til eða ráða til starfa eldri borgara," segir hann. Um tíu börn verða send heim af leikskólanum Sjónarhóli í Grafarvogi á hádegi dag hvern frá og með næstu viku vegna manneklu að sögn Bergljótar Jóhannsdóttur leikskólastjóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×