Erlent

Landnemar fluttir úr bænahúsum

Landnemar á Gasa-svæðinu öskruðu og æptu þegar ísraelskar sveitir létu til skarar skríða gegn þeim í dag. Fólkið var flutt úr bænahúsum með valdi. Harkan sex var boðorðið í dag og ísraelskir hermenn fylgdu því eftir, þó að sumum þeirra hafi verið það á móti skapi. Fimmtíu þúsund lögreglu- og hermenn voru til reiðu en þetta er stærsta hernaðaraðgerð Ísraels á friðartímum. Og voru bænahús í tveimur landnemabyggðum miðpunktar aðgerða í dag. Hundruð óvopnaðra lögreglu- og hermanna réðust inn í bænahús í einni stærstu landnemabyggðinni, Neveh Dekalim, þar sem um fimmtán hundruð harðlínuþjóðernissinnar höfðu komið sér fyrir. Þeir köstuðu öllu lauslegu í sveitirnar en létu sér annars nægja að öskra og æpa. Áður hafði verið samið um að enginn myndi beita skotvopnum, hvorki mótmælendur né lögregla. Lögreglur í óeirðabúningum réðust inn og báru illskeytt ungmenni út. Lögreglumenn beittu þrýstivatnsbyssum á mótmælendur sem héldu til á þaki bænahússins, þaðan sem þeir köstuðu eggjum og ljósaperum fylltum málningu. Hersveitir slökuðu eins konar búrum að þakinu og þangað var mótmælendunum skóflað inn. Konur og börn fengu að fara í friði. Ísraelskir embættismenn eru mjög ánægðir með gang mála og segja yfir áttatíu prósent landnema á Gasa hafa yfirgefið svæðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×