Erlent

Móðir berst gegn Íraksstríðinu

Barátta sorgmæddrar móður hefur vakið þjóðarathygli í Bandaríkjunum. Cindy Sheehan hefur staðið utan við búgarð Bush forseta svo dögum skiptir til að mótmæla Íraksstríðinu. Stríðið í Írak hefur verið umdeilt nánast frá upphafi en svo virðist sem sorg einnar móður ætli að valda meira uppnámi en flestar mótmælaaðgerðir hingað til. Cindy Sheehan er fjörutíu og átta ára gömul kona frá Vacaville í Kaliforníu. Í fyrra var elsti sonur hennar, Casey, í hernum og við störf í Írak. Hann sneri ekki aftur, og síðan þá hefur Cindy syrgt son sinn - og velt fyrir sér stríði sem hún segir tilgangslaust. Frá því skömmu eftir að Bush Bandaríkjaforseti fór í fríi á búgarði sínum í Texas hefur hún staðið þar skammt frá og mótmælt. Hún vill að hersveitir verði kallaðar heim frá Írak og krefst þess að fá að tala við Bush. Hún vill að Bush svari því af hverju sonur hennar dó og afhverju hann telji son hennar hafa dáið fyrir göfugan málstað. Bush hefur ekki áhuga á fundi en talsmenn Hvíta hússins segja Sheehan hafa hitt Bush áður og lýst skoðunum sínum. Barátta Sheehan hefur kveikt baráttuhug hjá fjölda manns og yfir sextán hundruð samkomur hafa verið haldnar víðsvegar um Bandaríkin henni til stuðnings. Margar þeirra hafa verið skipulagðar af félögum og hópum sem tengjast demókrötum. Allskonar fólk með ólíka hagsmuni notfærir sér kastljósið og fréttaskýrendur velta því fyrir sér hvort að mótmælin hafi blásið lífi í andstæðinga stríðsins um öll Bandaríkin. Að sama skapi hafa hægri menn sakað Sheehan um föðurlandssvik og að sverta minningu þeirra sem fallið hafa í Írak. Sjálf segir hún ekki ætla að fara burt frá Crawford í Texas fyrr en sumarleyfi forsetans líkur eða hann talar við hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×