Innlent

Kaffihús í Hljómskálagarðinn

"Þetta er í raun gömul hugmynd sem mér fannst vera tími til kominn að hrinda í framkvæmd," segir Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. Skipulagsráð samþykkti tillögu Dags í vikunni en hann segist vilja gera alvöru úr því að bæta mannlífið í þessum fallega garði. "Ég vil sjá kaffihús og útiveitingaaðstöðu í suðurhluta garðsins. Slík þjónusta hefur vakið lukku bæði í Nauthólsvík og í Grasagarðinum í Laugardal og ég hef trú á að borgarbúar vilji fá slíkt víðar. Í framhaldinu er vert að skoða aðrar hugmyndir um nýtingu svæðisins en þess verður að gæta að garðurinn verði áfram sú vin í miðju borgarinnar sem hann hefur verið." Dagur bendir á að með kaffihúsi í Hljómskálagarðinum sé ennfremur verið að styrkja tengsl miðborgarinnar og Háskóla Íslands en slíkt sé af hinu góða fyrir báða aðila.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×