Innlent

Hafa birt sex brottvísunarbréf

Búið er að birta sex mótmælendum brottvísunarbréf Útlendingastofnunar, en um tugur þeirra hefur nú þegar farið af landi brott. Verið er að skoða gögn varðandi hugsanlega kæru mótmælenda á hendur Ríkislögreglustjóra. Á fimmtudag í síðustu viku tók Útlendingastofnun ákvörðun um að birta 21 mótmælanda bréf þar sem þeim var gefin kostur á að veita andsvör við brottvísun frá landinu. Ríkislögreglustjóra var falið að birta mótmælendunum bréfið og að sögn Smára Sigurðssonar yfirmanns alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra hefur tekist að birta sex mótmælendum bréfið. Um tugur þeirra er farinn af landi brott og fara tveir með Norrænu í dag þar sem þeim verður birt bréfið. Engin andsvör frá mótmælendum hafa borist til Útlendingastofnunar vegna bréfsins um brottvísun þeirra. Í gær tilkynnti fulltrúi mótmælenda að þeir hyggðust kæra Ríkislögreglustjóra vegna harkalegra aðgerða lögreglunnar. Katrín Theódórsdóttir, lögmaður mótmælenda, segir að verið sé að fara yfir málið og alla atburðarásina. Hún segir að verið sé að fara yfir gögn og skoða myndir sem einn mótmælandinn, sem vinnur að heimildamynd, hefur tekið. Hún segir framhaldið ráðast síðar þegar búið sé að fara yfir þetta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×