Innlent

Sér eftir R-listanum

R-listinn hefur sungið sitt síðasta. Á fulltrúaráðsfundi Samfylkingarinnar í gærkvöldi var ákveðið að flokkurinn byði fram undir eigin nafni í næstu borgarstjórnarkosningum. Formaður Samfylkingarinnar horfir á eftir listanum með eftirsjá. Samstarf félagshyggjuflokkanna í Reykjavík hefur staðið yfir í tæp tólf ár undir merkjum R-listans. Verða þetta því að teljast nokkur tímamót í stjórnmálum borgarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist sjá eftir R-listanum þar sem hann hefur verið stór hluti af hennar pólitíska lífi undanfarin tólf ár. Hún sagði hann jafnframt hafa markað ákveðin þáttaskil í íslenskum stjórnmálum þar sem hann braut á bak aftur áratuga valdstjórn Sjálfstæðismanna í borginni og stóð fyri merkum umbótum í þágu fjölskyldufólks í Reykjavíka. Hún sagði þeim kafla lokið og nýr kafli tæki við með nýjum tækifærum og ögrunum. Hún sagðist ekki óttast að Sjálfstæðismenn næðu völdum en benti á að nú myndaðist ákveðið sóknarfæri fyrir þá á þessum tímamótum. Hún benti á að Sjálfstæðisflokkur væri ekki 50% flokkur, heldur 40% flokkur á góðum degi. Stjórn fulltrúaráðsins samþykkti tillögu þar sem meðal annars segir að ráðið vilji að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar starfi í borgarstjórn af heilindum út kjörtímabilið. Dagur B. Eggertsson stendur við yfirlýsingu sína um að koma ekki nálægt borgarmálum fyrst R-listinn bíður ekki fram í næstu kosningum. Hann sagðist hafa talað skýrt í þessu máli og hann segir að það standi stór hópur utan pólitískra afla sem hann vill reyna að laða til verka. Hann sagðist málið ekki snúast um sig og hann sagðist vonast til að flokkarnir opni fyrir öðrum sem eiga erindi í borgarmálin.  Dagur B. Eggertsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×