Innlent

Samfylkingin býður fram sér

Á fundi fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í gær var stjórn þess falið að móta hugmyndir um hvernig staðið skuli að framboðsmálum Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Skulu hugmyndir um tilhögun framboðsins lagðar fyrir fulltrúaráðsfund í september. Upphafið að kosningabaráttu Samfylkingarinnar verður á borgarmálaráðstefnu sem haldin verður í byrjun september. "Það stendur ekki annað til en að Samfylkingin bjóð fram sér," sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri í kvöldfréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi. Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi R-listans, sagði fundinn hafa verið góðan. "Við teljum möguleika Samfylkingarinnar svo mikla að ekki þurfi að gráta örlög R-listans." Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík telur að með ákvörðun félagsfundar Vinstri grænna á mánudag þar sem Vinstri grænir ákváðu að fara fram í eigin nafni, hafi verið bundinn endir á það farsæla samstarf sem félagshyggjufólk hefur haft í Reykjavík undanfarin 12 ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×