Innlent

Börn send heim af leikskólum

Líkur eru á því að senda þurfi börn heim af leikskólum í höfuðborginni strax í næstu viku vegna manneklu. Verst er ástandið í Grafarvogi og hittust leikskólastjórar þar á fundi í gærmorgun til þess að ræða málið. Boðað hefur verið til foreldrafunda í lok vikunnar og byrjun þeirrar næstu í nokkrum leikskólum þar sem ástandið er slæmt. "Það er ljóst að í ákveðnum hverfum borgarinnar geta leikskólarnir ekki veitt fulla þjónustu strax í haust," segir Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar. "Nokkrir leikskólar standa frammi fyrir því að ekki hefur tekist að ráða nóg af fólki og því líklegt að takmarka þurfi þjónustuna með aðgerðum á borð við þær að börnin geti ekki komið í leikskólann á hverjum degi." Stefán Jón segir á annað hundrað stöður lausar í leikskólum borgarinnar og óvenju erfitt að manna leikskólana. "Þensla á vinnumarkaði er gífurleg og atvinnuleysið komið niður í nánast ekki neitt," segir hann. "Það er gríðarlega hörð samkeppni um vinnuafl og við þannig aðstæður er því miður erfitt að manna þessar stöður." Leikskólastjórar í Grafarvogi sem Fréttablaðið ræddi við í gærkvöld kváðu ástandið misslæmt. Undirbúningur aðgerða vegna manneklu er þó hafinn í nokkrum leikskólum og hætt við að tugir barna verði sendir heim dag hvern með haustinu að óbreyttu. Leikskólastjórarnir segja fáar starfsumsóknir hafa borist og sumarstarfsmenn að hætta störfum. "Ástandið er slæmt og mannekla fyrirsjáanleg," segir Elín Ásgrímsdóttir, leikskólastjóri í Grafarvogi. Elín segir að ástandið hafi ekki verið svona slæmt síðan fyrir fimm árum, þegar senda þurfti átta börn heim af leikskólanum dag hvern. Ingunn Gísladóttir, starfsmannastjóri Menntasviðs Reykjavíkurborgar, segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvernig tekið verði á málum. Margar starfsumsóknir berist sviðinu þessa dagana og enn eigi eftir að vinna úr mörgum þeirra. Því sé óljóst hvort og þá hversu mikil áhrif mannekla á leikskólum muni hafa á starfið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×