Innlent

Samkynhneigðir megi ættleiða börn

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja undirbúning frumvarps sem meðal annars veitir samkynhneigðum rétt til jafns við gagnkynhneigða til þess að ættleiða börn frá útlöndum og gangast undir tæknifrjóvganir. Stefnt er að því að frumvarpið verði tekið fyrir á haustþingi að sögn Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Fyrirhugað frumvarp byggir á tillögum nefndar um réttarstöðu samkynhneigðs fólks sem lauk störfum síðastliðið haust. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að jafna bæri rétt samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í veigamiklum atriðum sem lúta meðal annars að staðfestri samvist og frumættleiðingum íslenskra barna. Nefndin klofnaði þó í afstöðu sinni til ættleiðingar barna frá útlöndum og tæknifrjóvgana. Þau atriði verða þó væntanlega jafnframt lögð fram í frumvarpinu. "Ef frumvarpið verður að veruleika hefur það einfaldlega þá þýðingu að allir verða jafnir hver sem staða þeirra er, á sama hátt og allir standa jafnt í okkar þjóðfélagi án tillits til trúmála eða litarháttar," segir Halldór. "Þarna er verið að stíga stórt skref í þá átt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×