Innlent

Samlag utan greiðslumatskerfis

Fetaostur frá mjólkursamlaginu Mjólku er væntanlegur í verslanir eftir þrjár til fjórar vikur. Skömmu síðar er von á jógúrt og fleiri ostum frá Mjólku, sem starfar fyrir utan greiðslumatskerfi landbúnaðarins. Undirbúningur fyrir tilraunframleiðslu í húsakynnum Mjólku er í fullum gangi þessa dagana enda er stefnt að því að hefja hana í lok þessarar viku eða byrjun þeirrar næstu. Upphaflega stóð þó til að framleiðslan kæmi á markað í lok maí en það gekk ekki eftir. Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, sagði að ýmsar tafir hefðu orðið og nefndi þar bæði breytingar og að leyfisveitingar hefðu tekið langan tíma og að tækjum hefði veirð breytt til að nýta heita vatnið. Við breytingu á verðlagningu olíu þótti Mjólkumönnum óhagstætt að nota gufuketil til framleiðslunnar og þurfti því að gera breytingar. En Mjólka er fyrir utan greiðslumatskerfi landbúnaðarins og nýtur því ekki styrkja frá ríkinu. Mjólkurfræðingur hefur verið ráðinn og hefur hann verið í þjálfun í Danmörku í sumar þar sem hann hefur unnið að þróun þeirra afurða sem Mjólka ætlar með á markað. Kýrnar sem gefa mjólkina í framleiðsluna eru á Eyjum II í Kjós. Fyrstu kýrnar komu á búið á fyrstu mánuðum ársins en von er á fleirum til viðbótar nú á fimmtudag og ættu þær að vera orðnar 120 talsins þá. En hvað hefur verið gert við mjólkina. Ólafur sagði að þeir hefðu unnið mjólkina úr kúnum þannig að þeir gætu nýtt hana þegar framleiðsla hæfist og hann sagði að þeir ættu talsvert hráefni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×