Innlent

Engar sættir í Landakoti

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst voru engar tilraunir gerðar til sátta í Landakoti eftir að nýr skólastjóri tók til starfa og fleiri starfsmenn hafa hætt störfum þar undanfarið vegna ástandsins. Eitthvað er um að foreldrar hafi tekið börn sín út úr skólanum og fleiri eru enn tvístígandi nú rétt áður en kennsla hefst. Stór hluti þeirra sem kennt hafa við skólann síðasta ár kemur ekki til starfa nú. Tveir kennarar sögðu nýverið störfum sínum lausum, og þrír leiðbeinendur, sem allir höfðu starfað þar lengur en einn vetur voru ekki endurráðnir og ekki rætt við þá, en réttindakennarar ráðnir í þeirra stað. Regína Höskuldsdóttir, skólastjóri í Landakoti, gat ekki svarað blaðamanni því með skýrum hætti hvernig hún hefði leitast við að ná sáttum í skólanum. "En það hefur tekist að því er ég tel farsællega að ná saman nýjum hópi. Ég er búin að ráða frábæra réttindakennara með reynslu í stað þeirra sem hættu, fleiri börn hafa innritast en verið hefur og hér er mættur til starfa öflugur hópur réttindafólks sem hlakkar til að takast á við nýtt skólaár."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×