Innlent

VG fram undir eigin nafni

R-listinn er liðinn undir lok en félagsfundur Vinstri Grænna í Reykjavík samþykkti í gær að bjóða fram undir eigin nafni. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri útilokar þó ekki samstarf Framsóknarflokks og Samfylkingar undir merkjum R-listans fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Steinunn fullyrðir að þrátt fyrir það sem á undan er gengið sé enn grundvöllur fyrir flokkana að starfa saman. Hún sagði að svo virtist sem ekki væri ágreiningu um málefni hjá Vinstri grænum, heldur frekar agreiningu um aðferðafræði. Steinunn Valdís segist jafnframt munu sækjast eftir starfi borgarstjóra áfram. Tvær tillögur voru bornar upp á fundi Vinstri Grænna í gærkvöld. Önnur frá stjórninni þar sem lagt var til að flokkurinn myndi bjóða fram undir eigin nafni í næstu borgarstjórnarkosningum. Sú tillaga hlaut um 70 prósent atkvæða. Hin tillagan kom frá Björk Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa Vinstri grænna sem vildi að flokkurinn héldi R-listasamstarfinu áfram. Hún segir þó af og frá að eitthvert R listasamstarf sé hægt að mynda án Vinstri grænna. Þá segir hún samstarf við Sjálfstæðisflokk aldrei verða. Hún sagðist sjá svart þegar hún heyrði minnst á Sjálfstæðisflokkinn og að það hræðilegasta sem gæti gerst væri það að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist til valda í borginni. Hún vonar að svo verði ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×