Innlent

Beraði sig fyrir framan stúlkur

Lögreglan í Reykjavík leitar nú karlmanns sem beraði kynfæri sín fyrir framan tvær ungar stúlkur í Reykjavík í gær. Stúlkurnar, sem eru níu ára gamlar, voru á gangi á Eggertsgötu í Reykjavík um sexleytið í gær þegar maðurinn gaf sig á tal við þær. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir manninn í kjölfarið hafa berað á sér kynfærin og við það hafi þær stokkið í burtu. Þær hafi brugðist hárrétt við og haft strax samband við lögreglu. Lýsing á manninum hafi verið send til allra lögreglubíla en því miður hafi ekki náðst til hans enn þá. Aðspurður hvort mál sem þessi séu algeng í Reykjavík segir Geir Jón að þau komi upp af og til. Heyrst hafi af nokkrum á umliðnum mánuðum en sem betur hafi það ekki orðið alvarlegra en atvikið í gær, en nóg sé það samt. Þá biður Geir Jón þá sem hugsanlega hafi orðið vitni að atvikinu að hafa samband við lögregluna því minnstu vísbendingar geti komið að gagni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×