Innlent

Einn lést vegna rafmagnsbruna

Eitt dauðsfall varð af völdum rafmagnsbruna á síðasta ári, en það er í fyrsta sinn síðan 1996 sem mannslát verður vegna rafmagnsbruna á Íslandi. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Neytendastofu um rafmagnsbruna árið 2004. Í skýrslu Neytendastofu yfir bruna og slys af völdum rafmagns árið 2004 kemur fram að meðaltal rafmagnsbruna á síðasta ári er nokkuð svipað öðrum árum en nokkur fækkun var þó frá árinu 2003 þegar óvenjumargir brunar voru skráðir. Flestir rafmagnsbrunar á heimilum á síðasta ári voru vegna eldavéla, í langflestum tilvikum vegna vangár eða gleymsku. 89 rafmagnsbrunar voru skráðir og mátti rekja 13 prósent þeirra til eldavéla. Utan heimila voru brunar algengastir vegna flúorlýsingar ásamt eldavélum, rafmagnstöflum og dreifikerfi, en samtals urðu 39 prósent bruna utan heimila vegna þessa búnaðar. Sjónvarpsbrunum fjölgaði verulega árið 2003, en sú fjölgun gekk til baka á síðasta ári. Eignatjón vegna rafmagnsbruna á síðasta ári er áætlað tæpar 311 milljónir króna. Eitt dauðsfall varð af völdum rafmagnsbruna á árinu, en það er í fyrsta sinn frá 1996 sem mannslát verður vegna rafmagnsbruna. Meðaldánartíðni vegna rafmagnsbruna síðasta áratugs er 0,3 dauðsföll á ári og er það lægri tíðni en annars staðar Norðurlöndunum. Algengast er að rafmagnsbrunar verði í íbúðarhúsnæði, en þar áttu 63 prósent þeirra sér stað í fyrra. Orsök bruna var í 44 prósentum tilvika vegna rangrar notkunar. Í um helmingi tilvika var orsökin bilun eða hrörnun í búnaðinum sjálfum, en aðeins í þremur prósentum tilvika vegna lausra tenginga. Með réttri notkun og frágangi hefði því mátt koma í veg fyrir um helming rafmagnsbruna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×