Innlent

Fiskvinnsla getur vel gengið

"Það er bara verið að teygja lopann með einhverjum kjaftavaðli," segir Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, um skýringar Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða á því hvers vegna greining á rekstri Bílddælings og Versölum lægi ekki fyrir í gær eins og gert hafði verið ráð fyrir. Shiran Þórisson, viðskiptaráðgjafi hjá Atvinnuþrónarfélaginu, segir að ekki hafi verið unnt að ljúka greiningunni á tilsettum tíma þar sem félaginu hafi ekki borist öll gögn í tíma frá bókhaldsskrifstofum sem höfðu gögn Bílddælings undir höndum. Hann segir þó að einhverjar ályktanir megi draga af þeirri athugun sem hann hefur þegar gert. "Góðu fréttirnar eru þær, miðað við það sem ég les úr þessum gögnum, að fiskvinnsla á vel að geta gengið á Bíldudal," segir Shiran. Hann segist þó ekki vilja fella neinn áfellisdóm yfir núverandi rekstraraðilum. Hann segist enn fremur reikna með að greiningin liggi fyrir um miðjan næsta mánuð. Þingmennirnir Guðjón A. Kristjánsson, Jón Bjarnason og Jóhann Ársælsson, sem allir sátu fund Þróunarfélagsins og bæjarstjórn Vesturbyggðar, ásamt öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis, þar sem atvinnumál Bíldudals voru rædd, sendu Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra bréf fyrir helgi þar sem farið er fram á það að hann upplýsi þingmennina um stöðu atvinnumála á Bíldudal. Í bréfinu segir að áform um að þingmennirnir yrðu upplýstir um framvindu mála hafi ekki verið fylgt eftir. Guðný Sigurðardóttir, staðgengill bæjarstjóra Vesturbyggðar, og Shiran undruðust viðbrögð Sigurjóns. "Ef hið opinbera á að leggja fjármagn í eitthvað þá hlýtur það að fara fram á það að skýr mynd af rekstrinum liggi fyrir," segir Guðný. Íbúar á Bíldudal sem blaðamaður Fréttablaðsins talaði við segjast vongóðir um að rekstur hefjist fljótlega aftur í fiskvinnslu staðarins hverjir svo sem rekstraraðilar verða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×