Innlent

Lögregla tekur á mótmælendum

Einn erlendur mótmælandi var í haldi lögreglu í rúmlega hálfan sólarhring eftir að hafa verið tekinn höndum fyrir utan Mál og menningu í gærkvöld. Tveir mótmælendur, karlmaður og kona, voru handtekinn í gærkvöld þar sem þau voru á gangi á Laugaveginum. Konunni var sleppt í nótt en maðurinn losnaði ekki úr haldi fyrr en eftir hádegi í dag. Þau eru ekki sátt við vinnubrögð lögreglu og segjast ekki vita hvað þau hafi gert til að verðskulda þessa framkomu. Keith Malcolm, mótmælandi segir að þau hafi verið á gangi og þá hafi tveir óeinkennisklæddir lögregluþjónar gripið í þau og þau vissu ekki hverjir þetta voru þar sem lögreglan sýndi ekki nein skilríki. Hann sagði lögregluna hafa tekið harkalega á vinkonu sinni, bæði um háls og hendur og haldið henni. Keith var sjálfur handtekinn í framhaldinu en segir að þau hafi ekki fengið að vita af hvaða ástæðu þau hefðu verið handtekinn. Keith var sá sem lengst tafði framkvæmdir við byggingu Fjarðaáls þegar hann var um þrjá klukkutíma upp í einum byggingakrananna. Keith segir mann á áttræðisaldri, sem vildi sýna honum stuðning á meðan hann var í haldi, hafa slasast þegar honum hafi verið vísað út af lögreglustöðinni. Lögregla staðfestir að manninum hafi ásamt fleira fólki verið vísað út vegna óláta og kalla og maðurinn hafi fallið í tröppu fyrir utan stöðina. Lögregla segir manninn ekki hafa slasast alvarlega eftir því sem sjúkraflutningsmennirnir sögðu þegar þeir sóttu hann. Þessu eru mótmælendur ekki sammála. Ekki náðist í lækninn sem tók á móti manninum nú rétt fyrir fréttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×