Innlent

Umsækjundur guldu fyrir reynslu

Landbúnaðarráðuneytið leitaði sérstaklega eftir reynslulitlum einstakling í starf sérfræðings á sviði markaðs- og framleiðslumála í árslok 2002 ef marka má skýringar sem Umboðsmaður Alþingis fékk frá ráðuneytinu. Í bréfi til umboðsmannsins segir að leitað hafi verið að undirmanni "og var almennt talinn kostur að umsækjendur hefðu ekki of mótaða reynslu heldur væru líklegir til að þroskast með starfinu til frambúðar". Umboðsmaður taldi þetta ekki byggt á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra vildi ekki tjá sig um álitið og ráðninguna og vísaði á Guðmund Björgvin Helgason ráðuneytisstjóra. "Ég ætla í sjálfu sér ekki að gagnrýna álitið sérstaklega," segir Guðmundur. "Það er hins vegar að okkar mati vel að þessari ráðningu staðið og ráðinn í það aðili með góða hæfileika til að vinna það starf sem um er að ræða. Þetta er ekki starf sem krefst mikillar starfsreynslu og það var ekki auglýst eftir henni sérstaklega. Starfið sem um ræðir er undirmannsstaða sem hentar vel menntuðu en ekkert endilega reynslumiklu fólki." Einn af umsækjendunum, sem voru 41, óskaði eftir rökstuðningi í ársbyrjun 2003 en erindið virðist aldrei hafa borist ráðuneytinu. Hann hafði ekki verið boðaður í viðtal. Seint á árinu 2004 ítrekaði hann ósk sína og kvartaði um svipað leyti til Umboðsmanns og eftir það tók fimm mánuði að svara erindinu. Þetta taldi Umboðsmaður verulegan drátt sem væri ámælisverður. Guðmundur vísaði í álitið um skýringar á þessu, en þar eru bréfaskrifti milli Umboðsmanns, ráðuneytisins og umsækjandans raktar. Umboðsmaður gerði enga athugasemd við það að umsækjandinn sem kvartaði til hans hafi ekki verið meðal þeirra umsækjenda sem boðaðir voru í viðtal og hann taldi ólíklegt að þeir annmarkar sem hann sá á ráðningunni leiddu til þess að hún væri ógild.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×