Erlent

Enn eitt metið slegið

Ekkert lát er á hækkunum á heimsmarkaðsverði á olíu en í gær fór verðið á fatinu í fyrsta sinn yfir 65 dali. Fellibyljir í suðurhöfum og kjarnorkuáætlun Írana eru á meðal orsaka hækkananna, að ógleymdri hryðjuverkaógninni. Síðastliðin ár hefur verð á hráolíu í heiminum sexfaldast. Árið 1999 kostaði fatið tíu dali en í fyrra fór það upp í 40 dali og þótti þá mörgum nóg um. Í gær var svo verðið komið upp í 65 dali. Í fyrradag var greint frá því að birgðaskár í Bandaríkjunum, mesta olíuneytanda heims, sýndu að olíubirgðir hafa dregist talsvert saman en það er afleiðing af lokun olíuhreinsistöðva í landinu. Þær fregnir urðu ekki til að auka fólki bjartsýni um að toppnum væri náð. Hins vegar kynnti Alþjóðaorkumálastofnunin IEA júlískýrslu sína í gær og þar kom fram að olíunotkun það sem af er ári væri 150.000 fötum minni en búist hafði verið við. Sömuleiðis virðist vera að draga úr olíunotkun Kínverja en þriðjungur hráolíuframleiðslu heimsins er fluttur þangað. Það eru því ekki eingöngu slæmar fréttir af þessum vettvangi. Margvíslegar skýringar eru á þessum miklu hækkunum. Lokanir olíuhreinsistöðva í Venesúela og Bandaríkjunum eru ein þeirra og fellibyljir í sunnanverðu Atlantshafi. Þá stendur ferðamannatíminn sem hæst og því er spurn eftir þotueldsneyti afar mikil. Í Mið-Austurlöndum varð dauði Fahds, konungs Sádi-Arabíu, til að hækka verðið á fatinu og óróinn sem hefur skapast vegna kjarnorkuáætlunar Írana hefur ekki orðið til að bæta úr skák. Þá er ótti um hryðjuverkaárásir, bæði í olíuframleiðsluríkjunum sem og annars staðar, stór þáttur í verðhækkunum. Flestir spá því að olíuverð muni haldast hátt að minnsta kosti eitthvað fram á næsta ár, fyrirtækjum og almenningi til sárrar gremju. Ef olíuverð mánaðanna eftir klerkabyltinguna í Íran 1979 er hins vegar framreiknað til dagsins í dag kemur í ljós að það var um níutíu dalir fatið þannig að ef til vill mega olíunotendur prísa sig sæla þrátt fyrir allt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×