Erlent

Telja Írana þróa kjarnorkuvopn

Harka færist í deilur Írana og alþjóðasamfélagsins, en Íranar ræstu í dag umdeilt kjarnorkuver. Talið er að þeir þrói kjarnorkuvopn og að í brýnu geti slegið. Síðdegis greindu írönsk stjórnvöld frá því að öll innsigli á lokuðum hlutum Isfahan-kjarnorkuversins hefðu verið rofin og að starfsemi þar væri þegar hafin. Íranar segjast þurfa að framleiða rafmagn en verulegar efasemdir eru á Vesturlöndum þar sem almennt er talið að unnið sé að þróun kjarnavopna þó að ekki séu allir sammála um hversu langt sú vinna eigi að vera komin. Ljóst er að Íranar geta auðgað úran í kjarnorkuverinu og framleitt hráefni í kjarnorkusprengjur, en til að auka óvissuna er ekki ljóst hvort að það er endilega takmarkið með kjanrorkuáætluninni eða hvort þeir vilja kúga ívilnanir út úr vesturveldunum líkt og Norður-Kóreustjórn hefur gert árum saman. Nýkjörinn forseti Írans, harðlínumaðurinn Mahmoud Ahmedinajad, hefur að auki skipað nýjan samningamann, harðlínumann sem er náinn æðsta klerki Írans, æjatolla Ali Khameini. Evrópuþjóðir með Þjóðverja, Frakka og Breta í broddi fylkingar hafa boðið Írönum ýmiss konar ívilnanir fyrir að hætta við kjarnorkuáætlun sína en Íranar höfnuðu nýjustu tilboðunum um helgina og sögðu þær móðgun. Nú er fundað stíft hjá Alþjóðakjarnorkumálstofnuninni og talið ljóst að aukin harka færist í málið. Málinu gæti verið vísað til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem gæti ákveðið viðskiptaþvinganir og sjálfir virðast Íranar öllu viðbúnir: fréttaritari Reuters segir tugi flugskeytavara hafi verið komið upp við kjarnorkuverið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×